Monday, January 15, 2007

Umferðarlagabrot ?

Þann 25. ágúst sl. (sjá blog hér á síðunni) gerði ég að umtalsefni þráhyggju einstakra ökumanna varðandi lagningu bifreiða sinna vinstra megin í einstefnugötum. Klárlega er um umferðarlagabrot að ræða og hefur sýslumaður látið hafa eftir sér að á því sé enginn vafi. Sama embætti heykist hinsvegar á því að sækja menn til saka fyrir þessi brot. Bera menn fyrir sig skorti á bílastæðum í hverfinu og ýmsu öðru sem þó heimilar ökumönnum ekki lögbrot. Svo undarlegt sem það má vera eru oftast laus stæði hægra megin, gegnt hinum ólöglega lögðu bílum, en menn virðast ekki nenna að ganga þá fimm metra til viðbótar. Nokkrum sinnum hefur komið upp sú staða að neyðarbílar, slökkvilið og sjúkraflutningamenn, hafa ekki komist leiðar sinnar vegna þessara fáu asna. Stundum var mannslíf að veði.

Þar sem embættið daufheyrist við umkvörtunum finn ég mig knúinn til að vekja athygli á þessu leiða vandamáli hér á þessari síðu, í þeirri von að þeir sem staðnir eru að verki hér eftir skammist sín nógu mikið til að hætta þessum ósóma.

PY-699
Lagt þvert yfir stöðvunarlínuna og þétt uppvið biðskyldumerkið. Sannarlega nær gatnamótum en lög segja til um.















NL-547
Lagt á nákvæmlega sama stað og pallbíll sem nefndur var í greininni 25.ágúst. Sá fékk áminningu en þessi ekki. Strangt til tekið er þessi ekki eins ólöglegur og þeir sem eru vinstra megin í þessari götu. Athygli vekur að þar eru tveir ólöglega lagðir og kerran sem var það í ágúst er þar enn.












Í mínu hverfi búa um 1000 manns og flest húsanna eru hálfrar aldar gömul eða eldri. Götur eru þröngar og litlu má muna til að þær teppist. Lögreglustjóri virðist hafa öðrum hnöppum að hneppa en að gæta laga og reglu og því er þessi leið farin til að vekja athygli á lögbrotum. Borgaraleg skylda býður manni jú að sitja ekki hjá ef verið er að brjóta lög.

No comments: